Hvernig varð hvítasunnukirkjan á Vopnafirði til
og
hvernig hefur starfið viðhaldist?
Starfið í stuttu máli
Um 1950 var upphaf hvítasunnustarfs á Vopnafirði. Þar hafði þá nokkur sumur komið hópur trúaðra, fólk frá Hvítasunnuhreyfingunni. Þetta fólk fór um landið í sumarfríi sínu. Tilgangurinn var að heimsækja sveitabæi og þorp og boða þar Guðs orð. Boðið var til sölu kristilegt lesefni og smáritum með fræðslu um fagnaðarerindi Jesú Krists og fl. dreift til fólks.
Sigurmundur Einarsson var hvatamaður og stjórnandi margra þessara ferða.
Fljótlega varð andleg hræring á Vopnafirði og varð það til þess að Sigurmundur heimsótti staðinn oft og dvaldi þar nokkurn tíma í einu. Hafði hann þá samkomur í heimahúsi, í húsi Ingibjargar Pálsdóttur, ljósmóður, sem fyrst varð til þess að játast Kristi. Síðan komu fleiri á eftir smátt og smátt.
Árið 1954 var svo byrjað á byggingu samkomuhúss.
Var það Aðalsteinn Sigurðsson, sonur Ingibjargar, sem stóð fyrir því ásamt bróður sínum og fleirum sem lögðu hönd á plóginn.
Árið 1959 var húsið vel á veg komið en 21. ágúst 1967 var það formlega vígt.
Myndinni er frá vigsluhátiðinni.
Sumarið 1961 fluttu Sigurmundur Einarsson og kona hans Margrét Þorsteinsdóttir til Vopnafjarðar. Þar störfuðu þau næstu árin. Þá sá Magnea Sigurðardóttir um fjölmennan sunnudagaskóla um árabil. Eftir það störfuðu þar hjónin Snorri Óskarsson og Hrefna Brynja Gísladóttir.
Lengst allra störfuðu hjónin Helgi Jósefsson og Arnbjörg Pálsdóttir á Vopnafirði, eða í 16-17 ár.
Á tíunda áratugnum voru Elías B. Árnason og Svandís Hannesdóttir hjá okkur í þrjú ár.
Kristinn Óskarsson og Carina Brengesjö voru hjá okkur í tvö ár, Lilja Óskarsdóttir ásamt fleirum.
Gísli Sigmarsson og Hrund Snorradóttir störfuðu við safnaðarstarf frá 2000 til 2005.
Eftir þetta höfum við haft fjölskyldusamkomur þar sem bryddað er upp á efni fyrir alla aldurshópa. Hafa það verið ánægjulegar stundir.
Lengi hefur verið þróttmikið barna- og unglingastarf á Vopnafirði og sér Astrid Örn-Aðalsteinsson um það.
Við þökkum öllum þeim sem hafa hjálpað okkur hér á Vopnafirði í gegnum árin við að útbreiða fagnaðarerindið um Jesú Krist. Við erum spennt fyrir hvað Guð vill gera hér á Vopnafirði.